Í viðræðum um nýjan samning

Paul Pogba er lykilmaður í franska landsliðinu sem hefur leik …
Paul Pogba er lykilmaður í franska landsliðinu sem hefur leik á EM á næstu dögum. AFP

Franski knattspyrnumaðurinn Paul Pogba hefur hafið viðræður við Manchester United um nýjan samning. Það er Sky Sports sem greinir frá þessu.

Núverandi samningur Pogba við enska úrvalsdeildarfélagið rennur út næsta sumar og getur hann þá farið frítt frá félaginu.

Pogba hefur verið sterklega orðaður við brottför frá félaginu undanfarin ár en forráðamenn United leggja nú mikla áherslu á að halda leikmanninum.

Miðjumaðurinn, sem er 28 ára gamall, gekk til liðs við United frá Juventus sumarið 2016 fyrir tæplega 90 milljónir punda.

Pogba hefur verið talsvert gagnrýndur fyrir frammistöðu sína með United í gegnum tíðina en hann á að baki 206 leiki fyrir félagið þar sem hann hef­ur skorað 38 mörk og lagt upp önn­ur 45.

mbl.is