Milinkovic-Savic til Liverpool?

Sergej Milinkovic-Savic átti mjög gott tímabil á Ítalíu.
Sergej Milinkovic-Savic átti mjög gott tímabil á Ítalíu. AFP

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool undirbúa nú tilboð í serbneska miðjumanninn Serge Milinkovic-Savic, miðjumann Lazio. Það er ítalski miðillinn Il Messaggero sem greinir frá þessu.

Liverpool leitar nú að arftaka Georginio Wijnaldums sem mun yfirgefa félagið um næstu mánaðarmót þegar samningur hans á Anfield rennur formlega út.

Wijnaldum hefur gert þriggja ára samning við PSG í Frakklandi en hann hefur verið lykilmaður í liði Liverpool frá 2016 þegar hann gekk til liðs við enska félagið frá Newcastle.

Milinkovic-Savic er einungis 26 ára gamall en hann hefur leikið með Lazio frá árinu 2015 og slegið í gegn á Ítalíu.

Hann var sterklega orðaður við Manchester United um tíma en hann skoraði átta mörk og lagði upp önnur níu í 32 leikjum í ítölsku A-deildinni á nýliðinni leiktíð.

Þá á hann að baki 22 A-landsleiki fyrir Serba þar sem hann hefur skorað þrjú mörk en hann er verðmetinn á 80 milljónir punda.

mbl.is