Vantar ellefu milljónir upp á

Það virðist fátt geta komið í veg fyrir félagaskipti Jadon …
Það virðist fátt geta komið í veg fyrir félagaskipti Jadon Sancho til Manchester United. AFP

Þýska knattspyrnufélagið Borussia Dortmund vill fá 86 milljónir punda fyrir enska landsliðsmanninn Jadon Sancho. Það er Sky Sports sem greinir frá því.

Sky Sports greindi frá því í gær að United hefði lagt fram 75 milljón punda tilboð í leikmanninn, 67 milljónir yrðu greiddar við skiptin og hinar átta milljónirnar áttu að vera árangurstengdar.

United þarf því að hækka sig umtalsvert til þess að landa leikmanninum sem hefur verið sterklega orðaður við United í meira en ár.

Bæði lið vilja klára félagaskiptin sem fyrst og helst áður en England hefur leik í lokakeppni EM en enska liðið mætir Króatíu á Wembley í D-riðli mótsins í fyrsta leik á sunnudaginn kemur.

Sancho, sem er 21 árs gamall, skoraði átta mörk og lagði upp önnur ellefu í 24 byrjunarliðsleikjum í þýsku 1. deildinni á síðustu leiktíð.

mbl.is