„Ólst upp í tveggja mínútna fjarlægð frá vellinum“

Raheem Sterling fagnar sigurmarki sínu í dag.
Raheem Sterling fagnar sigurmarki sínu í dag. AFP

Raheem Sterling var hetja enska landsliðsins í knattspyrnu þegar hann skoraði sigurmarkið í 1:0 sigri gegn Króatíu í fyrsta leik D-riðilsins á Evrópumótinu.

„Þetta er frábær tilfinning. Þetta var fyrsti leikur og við þurftum á sigri að halda. Við stóðum saman. Við skölluðum boltann þegar við þurftum, hreinsuðum þegar við þurftum og spiluðum mjög góðan fótbolta á köflum. Mér fannst strákarnir standa sig frábærlega,“ sagði Sterling í samtali við BBC eftir leik.

Hann kvaðst sérstaklega ánægður með það að skora á heimavelli Englands, Wembley í Lundúnum.

„Ef satt skal segja þá hef ég alltaf sagt við sjálfan mig, þar sem ég ólst upp í tveggja mínútna fjarlægð frá vellinum, að ég yrði að skora hérna. Það var frábær tilfinning að ná svo í raun og veru að gera það.“

Sterling bætti því við að þrátt fyrir góða byrjun á EM mætti enska liðið ekki slá slöku við í framhaldinu.

„Við þurfum að byggja ofan á þennan sigur og njóta dagsins. Við verðum að halda einbeitingu. Mótið er bara nýhafið. Við þurfum að halda áfram að vinna, vera með þetta sigurhugarfar og fara lengra.“

mbl.is