Enskur landsliðsmarkvörður til Arsenal?

Aaron Ramsdale reynir að verja frá Gareth Bale í leik …
Aaron Ramsdale reynir að verja frá Gareth Bale í leik Sheffield United og Tottenham í vetur. AFP

Samkeppnin hjá Rúnari Alex Rúnarssyni um markvarðastöðurnar hjá enska knattspyrnufélaginu Arsenal gæti harðnað enn frekar en nú er einn af landsliðsmarkvörðum Englands orðaður við félagið.

Sky Sports segir að Arsenal hafi áhuga á að fá Aaron Ramsdale frá Sheffield United til liðs við sig en hann var kallaður inn í enska landsliðshópinn á EM fyrr í vikunni þegar Dean Henderson meiddist.

Ramsdale hefur fallið úr ensku úrvalsdeildinni tvö ár í röð, fyrst með Bournemouth og síðan með Sheffield United.

Bernd Leno er aðalmarkvörður Arsenal en félagið fékk síðan Mat Ryan, landsliðsmarkvörð Ástralíu, að láni síðasta vetur, eftir að hafa keypt Rúnar Alex af Dijon í Frakklandi um haustið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert