Höfnuðu tilboð Arsenal í landsliðsmann

Ben White er á óskalista Arsenal.
Ben White er á óskalista Arsenal. AFP

Enska knattspyrnufélagið Brighton hefur hafnað 40 milljóna punda tilboði Arsenal í enska miðvörðinn Ben White. Það er Sky Sports sem greinir frá þessu.

White, sem er 23 ára gamall, er nú staddur með enska landsliðinu á Evrópumótinu en hann er uppalinn hjá Brighton.

Hann var sterklega orðaður við Liverpool í janúarglugganum síðasta en öll stærstu lið Englands eru sögð áhugasöm um leikmanninn.

Brighton er sagt tilbúið að selja leikmanninn í sumar en félagið vill fá í kringum 50 milljónir punda.

Arsenal þarf því að hækka tilboð sitt umtalsvert til þess að landa landsliðsmanninum en White á að baki 41 leik fyrir félagið í öllum keppnum frá árinu 2016.

mbl.is