Bakvörður Liverpool vill burt eftir EM

Neco Williams í leiknum gegn Ítalíu í gær.
Neco Williams í leiknum gegn Ítalíu í gær. AFP

Neco Williams, hægri bakvörður velska landsliðsins og Liverpool, vill fara frá enska félaginu með það fyrir augum að spila meiri aðalliðsbolta.

Frá þessu er greint á The Athletic.

Williams, sem er tvítugur, er varaskeifa fyrir Trent Alexander-Arnold, eins besta hægri bakvarðar heims, og telur litlar líkur á að geta skákað honum um byrjunarliðssæti.

Því búast forsvarsmenn Liverpool við því að hann muni óska eftir því að vera seldur þegar þátttöku Wales á Evrópumótinu í fótbolta lýkur. Liverpool verðmetur Williams á 10 milljónir punda.

Hann byrjaði í 0:1 tapi gegn Ítalíu í gær. Wales endaði þar með í öðru sæti A-riðils og er komið í 16-liða úrslit mótsins.

Williams, sem er uppalinn hjá Liverpool, hefur alls spilað 25 leiki fyrir liðið í öllum keppnum, þar af 12 í ensku úrvalsdeildinni.

Þá á hann 13 landsleiki að baki með Wales, þar sem hann hefur skorað eitt mark.

mbl.is