Höfnuðu 100 milljóna boði City í Kane

Harry Kane vill fara frá Tottenham í sumar.
Harry Kane vill fara frá Tottenham í sumar. AFP

Tottenham Hotspur hefur hafnað fyrsta boði Manchester City í framherjann Harry Kane. Tilboðið hljóðaði upp á 100 milljónir punda.

Ítalski fótboltablaðamaðurinn og félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano greinir frá þessu á CBS Sports.

Hann fullyrðir að tilboð upp á 100 milljónir punda hafi borist í Kane, auk möguleikans á að bæta einum eða tveimur leikmönnum við sem hluta af samkomulagi.

Raheem Sterling, Aymeric Laporte og Gabriel Jesus hafa verið nefndir í því samhengi en það væri þó háð því hvort þeir myndu vilja fara til Totttenham.

Kane hefur gefið það út að hann vilji yfirgefa Tottenham í sumar eftir rýra uppskeru á ferli sínum með félaginu hvað titla varðar. Hann hefur spilað með Tottenham alla tíð, fyrir utan nokkur lán sem hann fór á í neðri deildir Englands ungur að árum.

Þrátt fyrir að Kane vilji ólmur fara til stærra félags með það fyrir augum að berjast um titla ætla forsvarsmenn Tottenham ekki að láta hann fara nema félaginu berist „klikkað tilboð“, eins og Romano orðar það.

Býst hann við því að City snúi aftur með nýtt og endurbætt tilboð en að samningaviðræður við Tottenham muni koma til með að verða langar og strangar þar sem Daniel Levy, stjórnarformaður félagsins, hyggist gera allt sem í hans valdi stendur til þess að reyna að sannfæra Kane um að vera áfram.

mbl.is