Nýliðarnir styrkja sig

Milot Rashica féll úr þýsku 1. deildinni með Werder Bremen …
Milot Rashica féll úr þýsku 1. deildinni með Werder Bremen á síðasta tímabili. AFP

Nýliðar Norwich City í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eru búnir að festa kaup á Milot Rashica, 24 ára vængmanni frá Kósóvó.

Rashica, sem mun koma til með að fylla skarð Emiliano Buendía, sem var seldur til Aston Villa fyrir metfé á dögunum, er leikinn vængmaður sem kemur frá þýska félaginu Werder Bremen.

Bremen féll úr þýsku 1. deildinni á liðnu tímabili og spilar því í B-deildinni þar í landi á næsta tímabili.

Rashica gekk þó vel persónulega og skoraði 21 mark og lagði upp önnur 20 í 87 deildarleikjum á þremur og hálfu tímabili í þýsku 1. deildinni.

mbl.is