Sevilla hafnar Tottenham um stjórann

Julen Lopetegui á hliðarlínunni hjá Sevilla.
Julen Lopetegui á hliðarlínunni hjá Sevilla. AFP

Spænski knattspyrnustjórinn Julen Lopetegui sem stýrir liði Sevilla hefur hafnað afar góðu tilboði enska félagsins Tottenham Hotspur.

Þetta var haft eftir forseta Sevilla, José Castro, á spænsku útvarpsstöðinni Cadena SER. Þar sagði Castro að Lopetegui hefði hringt í sig og sagt sér frá tilboðinu en hann hefði þegar hafnað því þar sem hann hefði ekki áhuga á að yfirgefa Sevilla þótt um afar girnilegt boð hefði verið að ræða.

„Sumir stjórar láta peningana ráða för en Julen var mjög hreinskilinn með það að hann er ánægður hjá okkur og segir að væri leitun að betri vinnustað,“ sagði Castro.

Ekkert hefur gengið hjá Tottenham að finna eftirmann José Mourinho sem var sagt upp störfum áður en síðasta keppnistímabili lauk. Ryan Mason stýrði liðinu á lokaspretti tímabilsins.

Julen Lopetegui er 54 ára gamall Spánverji sem áður þjálfaði m.a. spænska landsliðið um skeið og stýrði liði Real Madrid í nokkra mánuði árið 2018. Hann tók við Sevilla sumarið 2019 og liðið vann Evrópudeildina undir hans stjórn sumarið 2020.

mbl.is