Gamla ljósmyndin: Laufléttir í London

Morgunblaðið/Börkur Arnarson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Guðni Bergsson, núverandi formaður KSÍ, lék um tíma með nokkrum býsna frægum knattspyrnumönnum þegar hann var í herbúðum Tottenham Hotspur. Þeir frægustu voru væntanlega Gary Lineker, Gary Mabbutt, Chris Waddle og Paul Gascoigne eða Gazza eins og hann er oft kallaður. 

Á myndinni eru þeir Guðni og Gazza laufléttir á leið á æfingu hjá Tottenham í London vorið 1989. Myndina tók Börkur Arnarson sem þá var í BA-námi í ljósmyndun í London College of Printing. Myndin birtist líklega fyrst í Morgunblaðinu 11. maí 1989. 

EM karla í knattspyrnu stendur nú yfir og hafa Englendingar leikið á Wembley í keppninni, nú síðast gegn Þjóðverjum en einnig gegn Skotum. Margir muna eftir Gazza á EM 1996 sem fram fór á Englandi. Sérstaklega glæsilegu marki hans gegn Skotlandi á Wembley en einnig því þegar hann rétt missti af boltanum fyrir opnu marki gegn Þjóðverjum í undanúrslitum á sama velli. 

Árið 1990 sló Gazza í gegn fyrir alvöru á alþjóðlegan mælikvarða þegar hann náði sér vel á strik á HM á Ítalíu eða rétt rúmu ári eftir að myndin er tekin. 

Þorsteinn J. Vilhjálmsson skrifaði bók um feril Guðna sem kom út árið 2005 og ber heitið Guðni Bergs - Fótboltasaga. Gazza kemur þar vitaskuld við sögu og þar hefur Þorsteinn meðal annars eftir Guðna: „Gazza var allt í öllu hjá Tottenham og mjög aðlaðandi persóna. Einu sinni bað hann Ellu konuna mína um að fá bílinn hennar lánaðan rétt sem snöggvast. Hann þurfti að mæta í landsleik fyrir Englands hönd og var seinn fyrir. Gazza lofaði að honum yrði komið til okkar þá um kvöldið en svo fór að hann skilaði honum sjálfur eftir tvo eða þrjá daga, fullur iðrunar. Hann færði okkur landsliðstreyjuna sína og kassa af konfekti í sárabætur. Það var svo auðvelt að fyrirgefa Gazza, því hann sá svo innilega eftir því ef hann gerði eitthvað rangt og var mjög lítill í sér.“ 

Guðni var hjá Tottenham Hotspur á árunum 1988 – 1994 en liðið lék þá eins og nú í efstu deild. Lék hann 72 leiki fyrir liðið í deildinni og skoraði tvö mörk. 

Guðni lék einnig með Val, 1860 München og Bolton á meistaraflokksferli sínum sem spannaði tvo áratugi. Guðni var lengi fyrirliði íslenska landsliðsins og lék 80 A-landsleiki. Formennsku hjá Knattspyrnusambandinu hefur hann gegnt frá árinu 2017. 

Guðni var tvívegis á meðal tíu efstu í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins og hafnaði í 4. sæti í kjörinu árið 2001. 

mbl.is