„Mun aldrei biðjast afsökunar á því hver ég er“

Marcus Rashford svekktur eftir að hafa brennt af vítaspyrnu í …
Marcus Rashford svekktur eftir að hafa brennt af vítaspyrnu í úrslitaleik Englands gegn Ítalíu á sunnudagskvöld. AFP

Marcus Rashford, sóknarmaður enska karlalandsliðsins í knattspyrnu, hefur beðist afsökunar á vítaklúðri sínu í vítakeppninni í úrslitaleik Englands gegn Ítalíu. Rashford sagðist þó aldrei myndu biðjast afsökunar á því hver hann sé og hvaðan hann kemur.

Hann var einn þriggja Englendinga sem klúðruðu vítaspyrnu í vítakeppninni og hafði Ítalía því sigur á mótinu.

„Það eina sem ég get sagt er „fyrirgefið“. Ég vildi að þetta hefði farið öðruvísi,“ sagði Rashford í yfirlýsingu á twitteraðgangi sínum í gærkvöldi.

Eftir vítaklúðrið hefur hann sætt hræðilegu kynþáttaníði, auk þess sem fólk hefur af einhverjum ástæðum fundið sig knúið til að gagnrýna það að hann hafi séð til þess að milljónir barna á Englandi, mörg hver sem glíma við fátækt, hafi fengið áframhaldandi skólamáltíðir þegar skólar voru í fríi.

„Ég hef vaxið inn í íþrótt þar sem ég bjóst við því að lesa hluti sem eru skrifaðir um mig. Það getur átt við litarhaft mitt, hvar ég ólst upp eða núna nýlega hvernig ég kýs að verja tíma mínum utan vallar.

Ég get tekið gagnrýni vegna spilamennsku minnar alla daga. Vítaspyrna mín var ekki nógu góð og hefði átt að rata í netið en ég mun aldrei biðjast afsökunar á því hver ég er og hvaðan ég kem,“ sagði hann einnig í yfirlýsingu sinni.

Ef ég hef ekkert annað hef ég þó það

Rashford vildi fremur einblína á þau jákvæðu skilaboð sem honum hafa borist eftir svekkelsið sem fylgdi því að tapa úrslitaleiknum á sunnudagskvöld.

„Ég hef aldrei verið stoltari en þegar ég hef verið með ljónin þrjú á bringunni og séð fjölskyldu mína hvetja mig áfram, umkringda tugþúsundum áhorfenda. Mig dreymdi um daga sem þessa.

Skilaboðin sem ég hef fengið í dag [í gær] hafa verið yfirþyrmandi á jákvæðan hátt og að sjá viðbrögðin í Withington olli því að ég táraðist nærri því. Samfélögin sem hafa ávallt gripið mig og tekið utan um mig halda áfram að gera það,“ skrifaði hann í yfirlýsingunni.

Vísaði Rashford þar til veggmyndar af sér í hverfinu þar sem hann ólst upp í Manchester. Rasísk skilaboð voru krotuð á veggmyndina skömmu eftir tapið á sunnudagskvöld en íbúar brugðust við því með því að fela þau og skrifa jákvæð skilaboð til hans í staðinn.

Veggmyndin af Rashford í Withington er nú uppfull af hjartnæmum …
Veggmyndin af Rashford í Withington er nú uppfull af hjartnæmum skilaboðum. AFP

„Ég er Marcus Rashford, 23 ára þeldökkur karlmaður frá Withington og Wythenshawe í Suður-Manchester. Ef ég hef ekkert annað hef ég þó það. Ég þakka ykkur fyrir öll hjartnæmu skilaboðin. Ég kem sterkari til baka. Við komum sterkari til baka,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert