Tíu úr ensku deildinni á Ólympíuleikunum

Richarlison, sóknarmaður Everton, hefur fengið lítið sumarfrí því hann lék …
Richarlison, sóknarmaður Everton, hefur fengið lítið sumarfrí því hann lék með Brasilíu í Ameríkubikarnum og fer líka á Ólympíuleikana. AFP

Nokkrir leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni eru á leiðinni á Ólympíuleikana í Tókýó með landsliðum sinna þjóða og verða því ekkert með liðum sínum á undirbúningstímabilinu en keppni í úrvalsdeildinni hefst föstudaginn 13. ágúst, fimm dögum eftir að leikunum lýkur.

Á Ólympíuleikum spila lið skipuð leikmönnum 23 ára og yngri en í Evrópu eru það liðin sem hófu síðustu Evrópukeppni 21-árs landsliða. Nú eru leikmennirnir hinsvegar 24 ára og yngri þar sem leikunum var frestað um eitt ár. Þá má hvert lið vera með þrjá eldri leikmenn.

Flestir úr úrvalsdeildinni á Englandi eru í liði Brasilíu en með liðinu spila Richarlison, sóknarmaður Everton, Douglas Luiz, miðjumaður Aston Villa, og Gabriel Martinelli, sóknarmaður Arsenal.

Með liði Fílabeinsstrandarinnar eru tveir frá Manchester United, kantmaðurinn Amad Diallo og miðvörðurinn Eric Bailly.

Með Frökkum er Niels Nkounkou, tvítugur vinstri bakvörður frá Everton.

Með liði Nýja-Sjálands eru Chris Wood, sóknarmaður Burnley, og Winston Reid, varnarmaður West Ham.

Með liði Argentínu er Alexis MacAllister, sóknarmaður Brighton.

Með lið Ástralíu er Daniel Arzani, ungur sóknarmaður frá Manchester City sem var samherji Jóns Dags Þorsteinssonar hjá AGF í Danmörku á síðasta tímabili sem lánsmaður.

Félögin réðu því hvort þau leyfðu leikmönnum sínum að fara á Ólympíuleikana og þannig hafnaði Liverpool því að Mohamed Salah léki þar með Egyptum og Arsenal neitaði William Saliba um að spila með Frökkum og Mohamed Elneny um að spila með Egyptum.

Tottenham hafði leyft Son Heung-min að leika með liði Suður-Kóreubúa en forráðamenn landsliðs þeirra ákváðu að skynsamlegra væri að hann fengi hvíld frá því verkefni og einbeitti sér að sínu félagsliði.

mbl.is