Hefur engar áhyggjur af landsliðsfyrirliðanum

Nuno Espírito Santo tók við Tottenham á dögunum.
Nuno Espírito Santo tók við Tottenham á dögunum. AFP

Nuno Espirito Santo, knattspyrnustjóri Tottenham, hefur engar áhyggjur af hugarástandi Harry Kane, framherja liðsins og fyrirliða enska landsliðsins.

Kane hefur áður gefið það út að hann vilji yfirgefa Tottenham og félög á borð við Chelsea, Manchester United og Mancehster City eru öll áhugasöm um framherjann. City lagði fram tilboð upp á 100 milljónir punda í síðasta mánuði sem Tottenham hafnaði.

„Ég hef engar áhyggjur af Kane. Vonandi er hann að jafna sig eftir EM og er að hvílast. Ég er viss um að mun leggja sig allan fram. Við erum metnaðarfullir og við viljum gera vel. Við treystum á Kane. Hann er okkar leikmaður og við munum spjalla saman þegar hann kemur til baka,“ sagði Espirito Santo á blaðamannfundi í dag.

Kane á þrjú ár eftir af samningi sínum við Tottenham, en hann hefur verið einn besti markaskorari ensku úrvalsdeildarinnar síðustu ár. Þrátt fyrir það hefur hann aldrei unnið stóran titil með Tottenham.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert