Ákærður fyrir kynþáttaníð í garð Ferdinands

Rio Ferdinand.
Rio Ferdinand. Skjáskot/Instagram

Búið er að ákæra mann sem er gefið að sök að hafa beitt sparkspekinginn Rio Ferdinand kynþáttaníði á leik Wolverhampton Wanderers og Manchester United í maí síðastliðnum.

Maðurinn, sem heitir Jamie Arnold og er 31 árs gamall, er sagður hafa viðhaft rasísk ummæli og látbragð í garð Ferdinand þegar hann var við störf hjá Sky Sports í tengslum við lokaleik ensku úrvalsdeildarinnar.

Arnold var handtekinn á meðan leiknum stóð, sem var fyrsti leikurinn sem áhorfendur voru leyfðir aftur á Molineux-velli Úlfanna frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst.

Arnold var einnig ákærður fyrir fordóma í garð samkynhneigðra.

Ferdinand tjáði sig um atvikið á meðan leiknum stóð á twitteraðgangi sínum og bætti því við eftir að leiknum lauk að hann vildi gjarna hitta Arnold, sem þá hafði ekki verið nafngreindur, undir fjögur augu og útskýra fyrir honum af hverju talsmáti eins og sá sem hann viðhafði væri ekki í lagi.

mbl.is