Enskur landsliðsmaður fer til Arsenal

Ben White (t.h.) í baráttu við félaga sinn í enska …
Ben White (t.h.) í baráttu við félaga sinn í enska landsliðinu, Phil Foden, í leik Brighton og Manchester City á síðasta tímabili. AFP

Enska knattspyrnufélagið Brighton & Hove Albion hefur samþykkt 50 milljón punda tilboð Arsenal í enska landsliðsmanninn Ben White og mun hann ganga til liðs við Skytturnar í lok mánaðarins.

Arsenal hefur verið á eftir hinum 23 ára gamla White í allt sumar og nokkrum sinnum gert Brighton tilboð. Þeim var öllum hafnað og forsvarsmenn Arsenal fengu einfaldlega þau skilaboð frá Brighton að verðmiðinn væri 50 milljónir punda.

Skytturnar ákváðu að lokum að gangast við því enda skotmark þeirra númer eitt þetta sumarið. White mun gangast undir læknisskoðun og skrifa undir samning hjá Arsenal þegar sumarfríi hans lýkur í lok mánaðarins.

White, sem er miðvörður sem getur þó einnig vel leyst stöðu miðjumanns og hægri bakvarðar, hefur skotist upp á stjörnuhimininn undanfarin tvö ár.

Hann var lánaður til Leeds United sumarið 2019 og hjálpaði liðinu að vinna ensku B-deildina. Hann sneri svo aftur til Brighton og stóð sig afar vel á síðasta tímabili, svo vel að hann var kallaður inn í enska landsliðshópinn fyrir Evrópumótið þegar Trent Alexander-Arnold hjá Liverpool meiddist.

Lék White sína fyrstu tvo landsleiki í vináttuleikjum í aðdraganda mótsins, þó hann hafi ekki komið við sögu á því sjálfu.

mbl.is