Sá besti eftirsóttur af Chelsea

Robert Lewandowski
Robert Lewandowski AFP

Robert Lew­andowski, fram­herji Þýska­lands­meist­ara Bayern München í knatt­spyrnu, er nýtt skotmark enska félagsins Chelsea sem ætlar að bjóða 50 milljónir punda í leikmanninn.

Pólverjinn er 32 ára gamall og einn besti framherji heims en hann skoraði 41 deildarmark í 29 leikjum í þýsku efstu deildinni á síðustu leiktíð og hefur skoraði yfir 350 deildarmörk á ferlinum. Chelsea hefur undanfarið verið á höttunum eftir Erling Haaland, hinum norska sóknarmanni Dortmund, en samningaviðræður félaganna sigldu í strand að sögn enska götublaðsins The Sun.

Segir í frétt miðilsins að forráðamenn Chelsea ætli nú að reyna að kaupa Lewandowski en Bayern München hef­ur lít­inn áhuga á að selja sinn besta mann. Fé­lagið verðmet­ur hann á 75 millj­ón­ir punda.

mbl.is