Belginn ungi kominn til Arsenal

Albert Sambi Lokonga á æfingu með belgíska landsliðinu í sumar.
Albert Sambi Lokonga á æfingu með belgíska landsliðinu í sumar. AFP

Enska knattspyrnufélagið Arsenal hefur staðfest kaup sín á belgíska miðjumanninum Albert Sambi Lokonga. Hann kemur frá Anderlecht og skrifar undir langtímasamning.

Arsenal hefur ekki gefið upp kaupverðið en það er sagt vera um 15 milljónir punda.

Lokonga er 21 árs gamall og leikur sem varnartengiliður og miðjumaður sem fer teiganna á milli.

Hann er þrátt fyrir ungan aldur reynslumikill og hefur leikið 78 deildarleiki fyrir Anderlecht frá því hann lék sinn fyrsta leik 18 ára gamall.

Hann hefur leikið með öllum yngri landsliðum Belgíu og var í æfingahópi A-landsliðsins fyrir Evrópukeppnina í sumar en var ekki í endanlegum 26 manna hópi.

Félagaskiptin höfðu legið lengi í loftinu og nú hefur Arsenal formlega staðfest þau. Lokonga mun klæðast treyju númer 23.

„Albert er mjög klár leikmaður sem hefur sýnt mikinn þroska í frammistöðu sinni á meðan hann hefur verið að þróa leik sinn. Hann hefur verið þjálfaður vel af Vincent Kompany og teymi hans hjá Anderlecht.

Ég þekki Vincent mjög vel og hann talar svo vel um Albert og hversu jákvæð áhrif hann hefur haft á Anderlecht undanfarin tímabil. Við erum þess fullvissir að Albert sé tilbúinn að taka næsta skref til þess að þróa leik sinn,“ sagði Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, í samtali við opinbera heimasíðu félagsins.

mbl.is