Samningaviðræður fara illa af stað

Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool og landsliðsmaður Englands.
Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool og landsliðsmaður Englands. AFP

Viðræður forsvarsmanna enska knattspyrnufélagsins Liverpool og fyrirliðans Jordans Hendersons um nýjan samning hafa farið illa af stað, en hann á tvö ár eftir af núverandi samningi.

Frá þessu er greint á The Athletic.

Bandarískir eigendur Liverpool hafa haft það fyrir reglu að bjóða ekki eldri leikmönnum sínum samninga á háum launum, sem er sögð ástæða þess að ekki náðust samningar við Georginio Wijnaldum, en hann fór á frjálsri sölu til París Saint-Germain í sumar.

Henderson er jafnaldri Wijnaldums og samkvæmt frétt The Athletic leist fyrirliðanum illa á fyrsta boð Liverpool og viðræðurnar sagðar flóknar og á viðkvæmu stigi.

Samningaviðræður eru þó enn í gangi en Henderson vill fá framtíð sína á hreint því honum hugnast ekki að vera varaskeifa og klappstýra utan vallar þar sem hann telur sig enn hafa fjölmargt fram að færa á vellinum.

Vilji er fyrir hendi hjá honum að vera áfram enda hefur hann gefið það út sjálfur að hann vilji enda feril sinn hjá Liverpool, þar sem hann hefur verið afar sigursæll undanfarin ár.

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri vill halda honum og forsvarsmenn félagsins sömuleiðis, en sjái Henderson ekki fram á að vera í þannig hlutverki að hann spili mikið á næstu árum gæti hann farið að hugsa sér til hreyfings.

PSG og Atlético Madríd eru sögð hafa áhuga á Henderson og fylgjast náið með gangi mála.

mbl.is