Nýliðarnir kaupa samherja Mikaels

Frank Onyeka (t.h.) í baráttu við Diogo Jota hjá Liverpool …
Frank Onyeka (t.h.) í baráttu við Diogo Jota hjá Liverpool í leik liðanna í Meistaradeild Evrópu síðasta vetur. AFP

Enska úrvalsdeildarfélagið Brentford hefur fest kaup á nígeríska miðjumanninum Frank Onyeka frá danska úrvalsdeildarfélaginu Midtjylland, sem íslenski landsliðsmaðurinn Mikael Anderson leikur með.

Brentford eru nýliðar í ensku úrvalsdeildinni eftir að hafa unnið umspilið um laust sæti í deildinni gegn Bournemouth undir lok síðasta tímabils.

Brentford og Midtjylland eru eins konar venslafélög enda á eigandi Brentford, Matthew Benham, hlut í danska félaginu.

Þjálfari Brentford er Daninn Thomas Frank og eru fimm danskir leikmenn á mála hjá félaginu, þótt engir þeirra hafi komið frá Midtjylland.

Onyeka er 23 ára og hefur verið á mála hjá Midtjylland frá árinu 2016. Hann varð í tvígang danskur meistari með liðinu, árin 2018 og 2020.

mbl.is