Tveir á útleið hjá Liverpool

Marko Grujic er á förum frá Liverpool.
Marko Grujic er á förum frá Liverpool. AFP

Þeir Marko Grujic og Taiwo Awoniyi, leikmenn Liverpool, eru á leið frá enska knattspyrnufélaginu, að þessu sinni fyrir fullt og allt.

Hinn serbneski Grujic, sem er 25 ára gamall miðjumaður, gekk til liðs við Liverpool í janúar árið 2016 og lék aðeins 16 leiki í öllum keppnum, þar sem hann skoraði eitt mark.

Hann hefur verið lánaður til fjögurra liða á undanförnum árum. Hann lék sem lánsmaður hjá Porto í Portúgal á síðasta tímabili og nú er félagið að festa kaup á honum fyrir 10 milljónir punda.

Hinn nígeríski Awoniyi, sem er 24 ára framherji, gekk til liðs við Liverpool sumarið 2015 en á ekki einn einasta keppnisleik fyrir liðið þar sem hann fékk aldrei atvinnuleyfi á Englandi.

Awoniyi hefur því verið lánaður til sex liða á undanförnum árum, síðast til Union Berlin í Þýskalandi, og líkt og í tilfelli Grujic hefur síðasta lánslið hans ákveðið að kaupa hann. Kaupverðið er sex og hálf milljón punda.

Þessu greinir hinn áreiðanlegi James Pearce hjá The Athletic frá á Twitter-aðgangi sínum og segir að gengið verði frá báðum þessum sölum á næsta sólarhring.

mbl.is