Solskjær með nýjan þriggja ára samning

Ole Gunnar Solskjær hefur fest sig í sessi á Old …
Ole Gunnar Solskjær hefur fest sig í sessi á Old Trafford. AFP

Manchester United skýrði frá því í dag að gengið hefði verið frá nýjum samningi til þriggja ára við norska knattspyrnustjórann Ole Gunnar Solskjær og hann verður því við stjórnvölinn að óbreyttu til ársins 2024.

Solskjær tók við liði United í desember 2018 þegar José Mourinho var sagt upp störfum. Hann var fyrst ráðinn til bráðabirgða út það tímabil en síðan var gerður við hann þriggja ára samningur að því loknu. Hann átti að renna út sumarið 2022.

United hafnaði í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar á sínu fyrsta heila tímabili undir stjórn Solskjærs, 2019-20, og á síðasta tímabili endaði liðið í öðru sæti deildarinnar, á eftir Manchester City, og fékk einnig silfurverðlaunin í Evrópudeild UEFA eftir ósigur gegn Villarreal í vítaspyrnukeppni.

Solskjær sem er 48 ára gamall og fæddur og uppalinn í Kristiansund lék áður með Manchester United í ellefu ár, frá 1996 til 2007, og skoraði þá 91 mark í 235 leikjum í úrvalsdeildinni og samtals 126 mörk í 366 mótsleikjum.

Hann stýrði akademíu United í þrjú ár eftir að hann lagði skóna á hilluna en var síðan þjálfari Molde í Noregi frá 2011 til 2018, að undanskildum átta mánuðum árið 2014 þegar hann var ráðinn knattspyrnustjóri Cardiff City í janúar en rekinn í september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert