Tottenham nær í ítalskan markvörð

Hugo Lloris fær samkeppni frá ítölskum markverði.
Hugo Lloris fær samkeppni frá ítölskum markverði. AFP

Enska knattspyrnufélagið Tottenham Hotspur hefur fengið ítalska markvörðinn Pierluigi Gollini lánaðan frá Atalanta í eitt ár, með kauprétti að þeim tíma liðnum.

Gollini er 26 ára gamall og var í tvö ár á mála hjá Manchester United, á aldrinum 17 til 19 ára, en gekk síðan til liðs við Hellas Verona. Hann sneri aftur til Englands og var tvö ár í röðum Aston Villa þar sem hann lék 20 leiki í B-deildinni en hefur verið hjá Atalanta frá 2017, fyrst eitt ár í láni frá Villa. Þar hefur hann leikið 89 leiki í ítölsku A-deildinni, þar af 25 á síðasta tímabili.

Gollini hefur leikið einn A-landsleik fyrir Ítalíu og lék með öllum yngri landsliðum þjóðar sinnar.

Hjá Tottenham berst hann um stöðuna við fyrirliðann og franska landsliðsmarkvörðinn Hugo Lloris sem hefur varið mark Lundúnaliðsins í níu ár og leikið 298 úrvalsdeildarleiki, og við Joe Hart fyrrverandi landsliðsmarkvörð Englands sem á eitt ár eftir af samningi sínum við Tottenham.

mbl.is