Dýrasti markvörður heims biðst afsökunar

Kepa Arrizabalaga.
Kepa Arrizabalaga. AFP

Kepa Arrizabalaga, markvörður enska knattspyrnufélagsins Chelsea, hefur beðið fyrrverandi þjálfara liðsins Marizio Sarri afsökunar á framferði sínu í úrslitaleik enska deildabikarsins árið 2019.

Spánverjinn varð dýrasti markvörður heims þegar Chelsea keypti hann af Atlético Madríd á 80 milljónir evra sumarið 2018. Eftir erfitt fyrsta tímabil í ensku úrvalsdeildinni tókst honum þó að hjálpa Chelsea að komast í úrslitaleik deildabikarsins þar sem liðið mætti Manchester City á Wembley.

Þegar komið var í framlengingu ætlaði Sarri, þáverandi knattspyrnustjóri Chelsea, að skipta um markvörð fyrir vítaspyrnukeppnina en Kepa neitaði að fara af velli. Sarri varð öskuillur á hliðarlínunni og markvörðurinn var að lokum sektaður um vikulaun hjá félaginu en Chelsea tapaði í vítaspyrnukeppninni.

Kepa, í viðtali við The Players Tribune, segir að atvikið hafi verið einn stór misskilningur og að Sarri hafi haldið að markvörðurinn væri meiddur þegar hann var hins vegar að reyna tefja til að koma liðinu í vítaspyrnukeppni. „Ég reyndi að láta vita að ég væri í lagi, en við vorum á Wembley fyrir framan 80 þúsund manns, auðvitað heyrði Sarri ekki í mér,“ sagði Kepa sem er fullur iðrunar yfir atvikinu, gagnvart bæði Sarri og Willy Caballero sem átti að koma inn á fyrir hann. „Ég brást illa við og ég átti ekki að gera það. Ég bið alla afsökunar, Maurizio Sarri sem ég virtist grafa undan opinberlega, Willy Caballero sem er frábær samherji og atvinnumaður.“

Sarri var látinn taka pokann sinn hjá Chelsea eftir tímabilið og stýrir í dag liði Lazio á Ítalíu. Kepa er enn á mála hjá Chelsea en missti byrjunarliðssæti sitt á síðustu leiktíð og spilaði ekki nema sjö deildarleiki í vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert