Langþráð endurkoma í vikunni?

Virgil van Dijk snýr brátt aftur í rauðu treyjuna.
Virgil van Dijk snýr brátt aftur í rauðu treyjuna. AFP

Virgil van Dijk, varnarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, gæti snúið aftur á völlinn eftir níu mánaða fjarveru vegna meiðsla þegar liðið mætir Herthu Berlín í æfingaleik á fimmtudaginn.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hafði látið í veðri vaka að leikurinn, sem fer fram í Austurríki, kæmi of snemma fyrir van Dijk, sem sleit krossband í hné snemma á síðasta tímabili, þar sem engin áhætta yrði tekin með miðvörðinn í bataferli hans.

Van Dijk hefur hins vegar haldið áfram að ganga í augun á læknateymi Liverpool og staðist öll próf sem hafa verið lögð fyrir hann að undanförnu. Van Dijk hefur jafnt og þétt aukið álagið við æfingar sínar og er nú að komast á þann stað að geta spilað nokkrar mínútur.

„Ég vonast til þess, en er ekki alveg viss, að Virgil geti spilað nokkrar mínútur. Hann lítur mjög vel út á æfingum og kannski getur hann komið inn af varamannabekknum, en ég þarf að ræða málin við þá sem eiga hlut að máli. Hann lítur út fyrir að vera tilbúinn en við sjáum til,“ sagði Klopp í samtali við opinbera heimasíðu Liverpool.

Hann bætti því við að Joe Gomez, sem var frá vegna hnémeiðsla í átta mánuði, liti sömuleiðis vel út á æfingum.

„Ef Virgil getur spilað 20 mínútur í næsta leik þá ætti Joey [Gomez] að geta gert það í leiknum þar á eftir. Við sjáum hvað setur. Þeir líta báðir mjög vel út á æfingum,“ sagði Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert