Missir af fyrsta leik

Harry Kane er fyrirliði enska landsliðsins.
Harry Kane er fyrirliði enska landsliðsins. AFP

Harry Kane, framherji enska knattspyrnufélagsins Tottenham Hotspur, mun ekki taka þátt í fyrsta leik ensku úrvalsdeildarinnar, þar sem liðið mætir Manchester City.

Svo vill til að City er á höttunum eftir Kane en gildir það einu þegar kemur að þátttöku Kane í leiknum hvoru liðinu hann verður á mála hjá þegar úrvalsdeildin hefst eftir tæpar þrjár vikur.

Kane hefur nefnilega lítið frí fengið eftir að hafa spilað í gegnum meiðsli síðasta hluta síðasta tímabils og komist alla leið í úrslit Evrópumótsins fyrr í sumar.

Hann er því að hvíla lúin bein um þessar mundir og ekki er búist við því að Kane verði kominn á fullt þegar úrvalsdeildin hefst, en að búast megi við honum í annarri umferð deildarinnar helgina á eftir.

Kane vill breyta til og ganga til liðs við félag sem vinnur titla, en hann hefur aldrei unnið til titils á ferli sínum.

Hann hefur undanfarin ár komist alla leið í úrslit með Tottenham, í Meistaradeild Evrópu árið 2019 og deildabikarnum á þessu ári, en tapað í bæði skiptin. Þá þurfti hann einnig að sætta sig við silfur þegar England tapaði gegn Ítalíu í úrslitaleik EM.

City hefur mikinn áhuga á Kane og vonast til þess að kaupa hann í sumar, þótt forsvarsmenn Tottenham séu harðir á því að halda framherjanum sterka í sínum röðum.

mbl.is