Fer til heimalandsins eftir átta ár á Englandi

Mamadou Sakho í leik með Crystal Palace.
Mamadou Sakho í leik með Crystal Palace. AFP

Franski miðvörðurinn Mamadou Sakho er búinn að skrifa undir þriggja ára samning við franska fyrstudeildarliðið Montpellier. Kemur hann á frjálsri sölu frá Crystal Palace eftir að samningur hans við liðið rann út fyrr í sumar.

Þar með lýkur átta ára dvöl hans á Englandi þar sem Sakho lék þrjú og hálft tímabil með Liverpool og fjögur og hálft með Palace, þar af fyrsta hálfa tímabilið sem lánsmaður frá Liverpool.

Sakho, sem er 31 árs gamall, var að glíma við meiðsli stærstan hluta síðasta tímabils og lék aðeins fjóra leiki með Palace í ensku úrvalsdeildinni.

Hann skrifar undir þriggja ára samning við Montpellier, sem lenti í áttunda sæti frönsku efstu deildarinnar á síðasta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert