Palace krækir í danskan landsliðsmann

Joachim Andersen í baráttu við Harry Kane í undanúrslitaleik Danmerkur …
Joachim Andersen í baráttu við Harry Kane í undanúrslitaleik Danmerkur og Englands á EM fyrr í þessum mánuði. AFP

Enska knattspyrnufélagið Crystal Palace hefur fest kaup á danska landsliðsmanninum Joachim Andersen en hann kemur frá Lyon í Frakklandi fyrir um það bil 18,7 milljónir punda.

Andersen er 25 ára gamall varnarmaður og var í röðum bæði Köbenhavn og Midtjylland áður en hann fór 17 ára gamall til Twente í Hollandi. Þar lék hann í fjögur ár, síðan með Sampdoria á Ítalíu í tvö ár og var í röðum Lyon í tvö ár. Hann var hins vegar lánaður til Fulham og lék með liðinu í úrvalsdeildinni á síðasta tímabili, spilaði þá 31 af 38 leikjum liðsins.

Andersen vann sér sæti í danska landsliðinu á EM í sumar og hefur spilað sjö af átta A-landsleikjum sínum á þessu ári. Hann fór með liðinu í undanúrslitin á EM þar sem það tapaði fyrir Englendingum í framlengdum leik á Wembley.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert