Arsenal staðfestir kaupin á White

Ben White var lykilmaður í liði Brighton á síðustu leiktíð.
Ben White var lykilmaður í liði Brighton á síðustu leiktíð. AFP

Enska knattspyrnufélagið Arsenal hefur fest kaup á enska landsliðsmanninum Ben White, sem kemur frá Brighton & Hove Albion.

Kaupverðið á White, sem er 23 ára gamall miðvörður, er 50 milljónir punda og hann er þar með orðinn þriðji dýrasti leikmaðurinn í sögu Arsenal, á eftir Nicolas Pépé og Pierre-Emerick Aubameyang.

White gerir langtímasamning við Arsenal og marka félagaskiptin enn eitt skrefið á merkilegum ferli hans til þessa, en honum hefur undanfarin tvö ár skotið ansi óvænt upp á stjörnuhimininn.

Hann byrjaði ferilinn hjá Southampton en þótti ekki nægilega góður og var látinn fara þaðan þegar hann var 16 ára. Þaðan fór White til Brighton og var lánaður til neðrideildarliða áður en hann var lánaður til Leeds United sumarið 2019.

Þar lék hann frábærlega þegar Leeds vann ensku B-deildina vorið eftir og átti sömuleiðis frábært síðasta tímabil með Brighton á sínu fyrsta og eina tímabili í ensku úrvalsdeildinni til þessa.

Svo vel gekk White að hann var valinn í lokahóp enska landsliðsins fyrir Evrópumótið, eftir að Trent Alexander-Arnold meiddist, og spilaði sína fyrstu tvo landsleiki í vináttuleikjum í aðdraganda mótsins.

Félögin höfðu komist að samkomulagi um vistaskiptin fyrr í mánuðinum en White gekkst ekki undir læknisskoðun fyrr en í þessari viku eftir að fríi hans í kjölfar EM lauk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert