Leeds kaupir markvörð frá Vålerenga

Kristoffer Klaesson er orðinn leikmaður Leeds.
Kristoffer Klaesson er orðinn leikmaður Leeds. Ljósmynd/Leeds United

Enska knattspyrnufélagið Leeds gekk í dag frá kaupum á hinum 20 ára gamla markverði Kristoffer Klaesson frá Vålerenga í Noregi. Hann skrifar undir fjögurra ára samning við úrvalsdeildarfélagið.

Klaesson var aðeins 18 ára þegar hann lék sinn fyrsta leik með Vålerenga og þá hefur hann leikið með öllum yngri landsliðum Noregs. Klaesson hefur verið aðalmarkvörður Vålerenga síðustu tvö tímabil og alls leikið 55 leiki með liðinu.

Leeds greiðir um 1,6 milljónir punda fyrir Klaesson. Hann verður að öllum líkindum varamarkvörður Leeds þar sem Illan Meslier er aðalmarkvörður. Klaesson leysir Kiko Casilla af hólmi en Spánverjinn var lánaður til Elche á dögunum.

mbl.is