Kane skrópaði á æfingu

Harry Kane vill yfirgefa herbúðir Tottenham Hotspur.
Harry Kane vill yfirgefa herbúðir Tottenham Hotspur. AFP

Harry Kane, markaskorarinn mikli í herbúðum enska knattspyrnufélagsins Tottenham Hotspur, mætti ekki á æfingu hjá liðinu í morgun eins og gert hafði verið ráð fyrir.

Kane var búinn að vera í fríi eftir að hafa leitt enska landsliðið til silfurverðlauna á Evrópumótinu í sumar og átti að mæta á sína fyrstu æfingu á undirbúningstímabilinu í morgun.

Paul Gilmour hjá Sky Sports greindi frá þessu á twitteraðgangi sínum.

Félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano sagði svo á sínum twitteraðgangi að hann hefði fengið tíðindin staðfest.

Romano bætti því við að samkvæmt heimildum hans væri þetta ákvörðun Kanes og tengdist ekki skimun fyrir kórónuveirunni.

Kane geri ráð fyrir að hann sé með herramannssamkomulag við félagið frá því fyrir ári um að hann megi yfirgefa Tottenham í sumar.

mbl.is