Skrópaði aftur á æfingu

Harry Kane vill yfirgefa Tottenham.
Harry Kane vill yfirgefa Tottenham. AFP

Harry Kane, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Tottenham Hotspur, var hvergi sjáanlegur á æfingasvæði liðsins, annan daginn í röð, þegar það æfði í morgun.

Kane telur sig hafa herramannssamkomulag við Daniel Levy, stjórnarformann Tottenham, um að mega yfirgefa félagið í sumar. Hann mætti ekki á æfingu í gær eftir sumarfrí eins og til var ætlast.

Búist er við því að Kane verði sektaður fyrir að mæta ekki á æfingar eins og honum ber að gera.

BBC greinir frá því að líkast til muni Kane mæta aftur á svæðið í lok vikunnar og ræða þar málin við forsvarsmenn Tottenham, en hann vill ólmur komast burt og reyna fyrir sér hjá stærra félagi með það fyrir augum að vinna sína fyrstu titla á ferlinum.

Manchester City hefur sýnt enska landsliðsfyrirliðanum áhuga en eru ekki reiðubúnir að borga 160 milljónir punda fyrir hinn mikla markahrók, sem fjölmiðlar á Bretlandseyjum hafa nefnt sem upphæðina sem þurfi að inna af hendi til þess að Tottenham samþykki að láta hann fara.

mbl.is