Vill ólmur komast til Everton frá Arsenal

Ainsley Maitland-Niles í leik með Arsenal.
Ainsley Maitland-Niles í leik með Arsenal. AFP

Ainsley Maitland-Niles, leikmaður enska knattspyrnufélagsins Arsenal, vill komast til Everton eftir að félagið gerði lánstilboð í hann í dag.

Paul Joyce, íþróttablaðamaður hjá The Times, greinir frá þessu á Twitter-aðgangi sínum í dag.

Hinn fjölhæfi Maitland-Niles lék sem lánsmaður hjá West Bromwich Albion síðari hluta síðasta tímabils þegar liðið féll úr ensku úrvalsdeildinni.

Þar sem tækifæri hans hjá Arsenal hafa verið af skornum skammti vill Maitland-Niles gjarna fara til Everton með það fyrir augum að fá að spila meira.

„Það eina sem ég vil gera er að fara eitthvert þar sem krafta minna er óskað og ég fæ að spila,“ skrifaði hann á Instram-aðgangi sínum í dag.

Hann getur spilað sem bakvörður og vængmaður báðum megin auk þess að leysa stundum stöðu miðjumanns og ætti fyrst og fremst að veita Seámus Coleman samkeppni um hægri bakvarðarstöðuna.

Að sögn Joyce vill Arsenal nú halda honum í sínum röðum eftir að félagið hafði verið opið fyrir því að láta hann fara fyrr í sumar.

Maitland-Niles mun ræða við Mikel Arteta, knattspyrnustjóra Arsenal, og biðla til hans um að fá að fara.

Everton er í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sjö stig líkt og fjögur önnur lið í sætum 2–5 að þremur umferðum loknum.

Arsenal er hins vegar á botni deildarinnar án stiga og er eina lið hennar sem hefur ekki enn skorað á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert