Hargreaves: Metnaður Ronaldos mun smita liðsfélagana

Owen Hargreaves, fyrrverandi leikmaður Manchester United, hafði ansi margt gott að segja um Cristiano Ronaldo, sem hann lék með á árum áður, í samtali við Tómas Þór Þórðarson, ritstjóra enska boltans á Símanum Sport.

Eins og hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum er Ronaldo nú mættur aftur til United eftir að hafa spilað með liðinu frá 2003 til 2009.

Í samtali sínu við Tómas Þór talar Hargreaves meðal annars um ótrúlega hæfileika sem Ronaldo býr yfir, óviðjafnanlegan metnað sem muni koma til með að smita liðsfélaga hans.

Þá talar Hargreaves um að Ronaldo sé ekki kominn aftur í ensku úrvalsdeildina til þess að slá slöku við og hafa það náðugt, eitthvað sem Ronaldo hefur sjálfur tekið fyrir, heldur einfaldlega til þess að vinna leiki og titla.

Áhugavert spjall Tómasar Þórs og Hargreaves um Ronaldo má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

mbl.is