Santo og Antonio bestir í ágúst

Michail Antonio fagnar einu af fjórum mörkum sínum í ágúst.
Michail Antonio fagnar einu af fjórum mörkum sínum í ágúst. AFP

Portúgalski knattspyrnustjórinn Nuno Espírito Santo hjá Tottenham Hotspur hefur verið valinn stjóri mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni í ágúst. Michail Antonio, leikmaður West Ham United, var þá valinn leikmaður mánaðarins.

Stjóratíð Santo fór fullkomlega af stað þegar Tottenham vann þrjá 1:0 sigra í mánuðinum og trónir eitt á toppi úrvalsdeildarinnar.

Antonio, sem spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir Jamaíka á dögunum, fór mikinn með West Ham sem vann tvo leiki og gerði eitt jafntefli í ágúst.

Í leikjunum þremur fór Antonio á kostum og skoraði fjögur mörk auk þess að leggja upp þrjú til viðbótar og fiska eina vítaspyrnu.

Santo hefur áður verið valinn stjóri mánaðarins í deildinni, í þrígang með Wolverhampton Wanderers, sem hann stýrði frá 2017 til 2021.

Antonio hefur einu sinni áður verið valinn leikmaður mánaðarins, í júlí árið 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert