Palace fór illa með tíu Tottenham-menn

Wilfried Zaha fagnar fyrsta marki Crystal Palace í dag.
Wilfried Zaha fagnar fyrsta marki Crystal Palace í dag. AFP

Crystal Palace sá til þess að Tottenham Hotspur tapaði sínum fyrstu stigum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu þegar liðið vann öruggan 3:0 sigur í 4. umferð deildarinnar í dag.

Crystal Palace réði lögum og lofum í leiknum en virtist lengi vel ætla að reynast það fyrirmunað að skora.

Besta færi fyrri hálfleiks fékk Conor Gallagher, lánsmaður frá Chelsea, undir lok hans. Þá skaut Gallagher að marki af örstuttu færi eftir magnaðan undirbúning Wilfried Zaha en Hugo Lloris varði frábærlega með fótunum.

Á 58. mínútu dró til tíðinda þegar Japhet Tanganga fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt. Tottenham, sem var búið að eiga í stökustu vandræðum fyrir þetta, lék því það sem eftir lifði leiks einum færri.

Einum fleiri tókst Palace að nýta sér liðsmuninn. Ben Davies, sem kom inn á sem varamaður vegna brottreksturs Tanganga, varð fyrir því óláni að handleika knöttinn innan vítateigs þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum.

Jon Moss dómari leiksins benti samstundis á vítapunktinn og úr vítaspyrnunni skoraði Wilfried Zaha af öryggi.

Á 84. mínútu lagði Zaha upp mark fyrir franska sóknarmanninn Odsonne Édouard, sem hafði komið inn á sem varamaður örfáum sekúndum áður í sínum fyrsta leik fyrir Palace.

Undirbúningur Zaha var frábær og endaði með því að hann lagði boltann á Édouard í vítateignum sem tók við boltanum, lagði hann fyrir sig og skoraði með hnitmiðuðu skoti niður í hornið.

Hann var svo aftur á ferðinni á þriðju mínútu uppbótartíma. Þá fékk Édouard sendingu frá Gallagher og var einn á auðum sjó í vítateignum, lagði boltann fyrir sig, skaut í Lloris sem náði aðeins að verja boltann í netið.

Óhætt er að segja að Édouard hafi því fengið draumabyrjun með Palace.

3:0 urðu lokatölur og fyrsti sigur Palace og fyrsta tap Tottenham á tímabilinu staðreynd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert