Ronaldo skoraði tvö í endurkomunni

Cristiano Ronaldo fagnar fyrra marki sínu í leiknum í dag.
Cristiano Ronaldo fagnar fyrra marki sínu í leiknum í dag. AFP

Cristiano Ronaldo gerði sér lítið fyrir og skoraði tvö marka Manchester United þegar liðið vann Newcastle United, 4:1, í endurkomu portúgölsku stórstjörnunnar í rauðu treyjuna í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Fyrra mark Ronaldos kom á annarri mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks. Mason Greenwood þrumaði þá að marki, Freddie Woodman í marki Newcastle náði ekki að halda boltanum og Ronaldo var mættur sem gammur til að koma boltanum í netið af stuttu færi, 1:0.

Þannig stóðu leikar í hálfleik.

Eftir rólega byrjun á síðari hálfleik jöfnuðu gestirnir í Newcastle metin á 56. mínútu. Þar var að verki vængbakvörðurinn Javier Manquillo eftir frábæra skyndisókn. Miguel Almirón brunaði þá fram, gaf boltann á Allan Saint-Maximin sem kom honum á Manquillo og Spánverjinn kláraði laglega, 1:1.

Ronaldo skoraði svo sitt annað mark á 62. mínútu. Þá fékk hann sendingu inn fyrir frá Luke Shaw, rak boltann inn í vítateig, lagði hann fyrir sig á vinstri fótinn og setti milli fóta Woodman, 2:1.

Landi Ronaldos, Bruno Fernandes skoraði svo þriðja markið á 80. mínútu. Hann fékk þá boltann fyrir utan teig frá Greenwood og skoraði með stórglæsilegu skoti sem söng uppi í nærhorninu, 3:1.

Á annarri mínútu uppbótartíma venjulegs leiktíma gerði varamaðurinn Jesse Lingard endanlega út um leikinn. Hann fékk þá sendingu frá Pogba, lagði boltann vel fyrir sig í vítateignum og kláraði laglega í bláhornið, 4:1

Það reyndust lokatölur og United er þar með komið upp í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar, að minnsta kosti um sinn.

Javier Manquillo fagnar marki sínu.
Javier Manquillo fagnar marki sínu. AFP
Cristiano Ronaldo er mættur aftur á Old Trafford.
Cristiano Ronaldo er mættur aftur á Old Trafford. AFP
Man. Utd 4:1 Newcastle opna loka
90. mín. Jesse Lingard (Man. Utd) skorar +2 Lingard gerir endanlega út um leikinn! Fær sendingu frá Pogba, leggur boltann vel fyrir sig og klárar laglega í bláhornið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert