Liverpool upp að hlið United og Chelsea

Mohamed Salah fagnar 100. marki sínu í ensku úrvalsdeildinni.
Mohamed Salah fagnar 100. marki sínu í ensku úrvalsdeildinni. AFP

Liverpool átti ekki í teljandi vandræðum með Leeds United þegar liðin mættust í 4. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í dag. 3:0 urðu lokatölur og Liverpool er þar með búið að jafna Manchester United og Chelsea að stigum á toppi deildarinnar.

Leikurinn fór afar fjörlega af stað og fékk Rodrigo fyrsta góða færi leiksins á fimmtu mínútu þegar hann þrumaði beint á Alisson í marki Liverpool úr kjörstöðu.

Nokkuð jafnræði var með liðunum um stund en þegar um stundarfjórðungur var liðinn af fyrri hálfleik tóku Liverpool öll völd og fóru að ógna í sífellu.

Mikil pressa endaði með marki á 20. mínútu. Joel Matip rak þá boltann upp völlinn, tók þríhyrning við Mohamed Salah, gaf svo til hliðar á Trent Alexander-Arnold sem þrumaði föstum bolta þvert fyrir markið beint fyrir fætur Salah og hann átti ekki í vandræðum með að koma boltanum í netið af stuttu færi.

Þetta var 100. mark Salah í ensku úrvalsdeildinni. 98 þeirra hefur hann skorað fyrir Liverpool og tvö skoraði hann fyrir Chelsea.

Áfram var Liverpool við stjórn og fór nokkrum sinnum illa að ráði sínu þegar góð færi fóru forgörðum. Best þeirra var færi Sadio Mané á 26. mínútu, þegar hann þrumaði boltanum yfir markið fyrir opnu marki af örstuttu færi, þó sending Diogo Jota hafi að vísu verið helst til föst og aðeins fyrir aftan Mané.

Undir lok fyrri hálfleiks fékk Luke Ayling svo dauðafæri hinu megin þegar hann skaut boltanum yfir af stuttu færi með hnénu eftir frábæra fyrirgjöf Jack Harrison.

Liverpool leiddi því með einu marki í hálfleik.

Skelfileg meiðsli Elliotts

Síðari hálfleikur hófst af svipuðum krafti. Mané slapp einn í gegn á 49. mínútu en virtist felldur þegar hann skaut, boltinn barst til hliðar á Salah sem var einn fyrir opnu marki en varamaðurinn Pascal Struijk náði að renna sér fyrir skotið á ögurstundu.

Upp úr hornspyrnunni  tvöfaldaði Liverpool hins vegar forystuna. Alexander-Arnold tók hana og fanna þar van Dijk sem skallaði boltann áfram. Fabinho náði ekki til boltans og varnarmenn Leeds náðu sömuleiðis ekki að hreinsa almennilega, boltinn féll þá fyrir fætur Fabinho og kom boltanum í netið af stuttu færi, 2:0.

Á 58. mínútu dró til tíðinda. Struijk fór í hörkutæklingu á Harvey Elliott sem lá sárþjáður eftir. Viðbrögð liðsfélaga hans og læknateymis Liverpool voru á þá leið að Elliott hefur vísast fótbrotnað. Í það minnsta virtust meiðslin grafalvarleg og Elliott fór af velli á börum. Struijk fékk beint rautt spjald fyrir vikið.

Eftir þessi áföll fyrir bæði lið róaðist leikurinn umtalsvert um stund en að um tíu mínútum liðnum færðist aftur fjör í leikinn og Liverpool fékk nokkur frábær færi til þess að bæta við mörkum.

Sadio Mané skorar þriðja mark Liverpool í leiknum.
Sadio Mané skorar þriðja mark Liverpool í leiknum. AFP

Þriðja markið kom loks á annarri mínútu uppbótartíma. Salah fann varamanninn Jordan Henderson í góðu hlaupi upp hægri kantinn. Henderson gaf yfir á Thiago, sem renndi boltanum til hliðar á Mané sem sneri laglega í vítateignum og þrumaði boltanum svo niður í fjærhornið, 3:0.

Það reyndust lokatölur og nú eru Liverpool, Manchester United og Chelsea jöfn á toppi deildarinnar með 10 stig og eru öll með átta mörk í plús.

Leeds er hins vegar í neðri hlutanum með aðeins 2 stig.

Patrick Bamford og Virgil van Dijk í leiknum í dag.
Patrick Bamford og Virgil van Dijk í leiknum í dag. AFP
Leeds 0:3 Liverpool opna loka
90. mín. Átta mínútum verður bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert