Áfrýja rauða spjaldinu

Harvey Elliott og Pascal Struijk eftir að sá fyrrnefndi meiddist …
Harvey Elliott og Pascal Struijk eftir að sá fyrrnefndi meiddist illa. AFP

Forsvarsmenn enska knattspyrnufélagsins Leeds United hafa ákveðið að áfrýja rauða spjaldinu sem Pascal Struijk fékk fyrir tæklingu í leik gegn Liverpool á sunnudaginn.

Struijk fékk beint rautt spjald eftir að VAR hafði skoðað atvik þar sem hann fór harkalega í Harvey Elliott, sem meiddist afar illa á ökkla fyrir vikið.

Struijk er á leiðinni í þriggja leikja bann vegna spjaldsins en Leeds lætur nú reyna á að fá því aflétt.

Elliott hefur sjálfur sagt að honum hafi ekki þótt um rautt spjald að ræða.

Struijk fór óvarlega aftan í Elliott en ásetningur til þess að slasa hann virtist þó enginn og verður áhugavert að sjá hvaða augum áfrýjunardómstóll ensku úrvalsdeildarinnar mun líta tæklinguna.

mbl.is