„Þetta var ekki hans sök“

Harvey Elliott meiðist eftir tæklingu Pascal Struijk.
Harvey Elliott meiðist eftir tæklingu Pascal Struijk. AFP

Harvey Elliott, miðjumaður Liverpool, hefur komið Pascal Struijk, varnarmanni Leeds United, til varnar eftir að harkaleg tækling Struijk varð þess valdandi að Elliott meiddist illa á ökkla í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu um helgina.

Struijk fékk beint rautt spjald fyrir tæklinguna og eru skiptar skoðanir uppi um hvort það hafi verið rétt ákvörðun hjá dómarateymi leiksins. Hann fór óvarlega aftan í Elliott en ásetningur um að brjóta virtist þó síður en svo vera til staðar.

„Þetta var ekki hans sök á nokkurn hátt! Þetta var ekki heldur rautt spjald, þetta var einungis óheppilegt slys. Þessir hlutir gerast í fótbolta. Ég kem sterkari til baka, það er 100 prósent. Takk fyrir allan stuðninginn,“ skrifaði Elliott á Instagramaðgangi sínum í gær.

Elliott mun gangast undir aðgerð á ökklanum sem fór úr lið. Auk þess er óttast að hann hafi brotnað.

Struijk sér fram á að fara í þriggja leikja bann eins og reglur enska knattspyrnusambandsins kveða á um þegar leikmaður fær beint rautt spjald fyrir ofsafengna tæklingu.

mbl.is