Verðlaunapeningum James rænt

Reece James var að spila leik með Chelsea í Meistaradeild …
Reece James var að spila leik með Chelsea í Meistaradeild Evrópu gegn Zenit þegar brotist var inn á heimili hans. AFP

Reece James, leikmaður Chelsea og enska landsliðsins í knattspyrnu karla, varð fyrir þeirri óskemmtilegu upplifun að innbrotsþjófar brutust inn til hans og rændu verðmætum.

Þar á meðal voru þrír verðlaunapeningar sem hann hefur unnið sér inn á þessu ári með Chelsea og Englandi; gullmedalíur fyrir sigur Chelsea í Meistaradeild Evrópu og Ofurbikarnum og silfurmedalía fyrir að lenda í öðru sæti á Evrópumótinu.

„Að kvöldi 14. september 2021, þegar ég var að spila fyrir félagið mitt er Meistaradeild Evrópu hófst að nýju, braust hópur huglausra innbrotsþjófa inn á heimili mitt. Þeim tókst í sameiningu að lyfta þungum öryggisskáp sem innihélt nokkra hluti í persónulegri eigu minni og flytja hann í bíl sinn.

Ég geymi aldrei neina skartgripi í minni eigu á heimili mínu þannig að það eina sem var í öryggisskápnum voru gullmedalíurnar mínar fyrir Meistaradeild Evrópu og Ofurbikarinn og silfurmedalían fyrir EM 2020.

Þessir verðlaunapeningar unnust þegar ég lék fyrir hönd Chelsea og Englands – sigrar sem aldrei er hægt að taka frá mér hvort sem ég sé með raunverulega peningana í höndunum til þess að sýna fram á það,“ skrifaði James á Instagram-aðgangi sínum.

Þar birti hann einnig nokkur myndskeið af þjófunum og biðlaði til fylgjenda sinna að hjálpa sér og lögreglunni að hafa hendur í hári innbrotsþjófanna.

Um leið bætti James því við að hann væri heill á húfi og að enginn hafi verið á svæðinu þegar innbrotið átti sér stað.

View this post on Instagram

A post shared by Reece James (@reecejames)

mbl.is