Ég er besti miðjumaður ensku úrvalsdeildarinnar

Yves Bissouma er einn lykilmanna Brighton.
Yves Bissouma er einn lykilmanna Brighton. AFP

Yves Bissouma, miðjumanni enska úrvalsdeildarfélagsins Brighton & Hove Albion, skortir ekki sjálfstraust, enda telur hann einfaldlega að sé besti miðjumaður deildarinnar.

„Ég vil ekki hljóma hrokafullur því enska úrvalsdeildin inniheldur svo gífurlega marga góða miðjumenn en að mínu mati er það ég,“ sagði Bissouma í samtali við Glenn Murray hjá BBC Sport,

Murray er fyrrverandi liðsfélagi hans hjá Brighton þar sem þeir léku saman á árunum 2018 til 2021.

Bissouma gekk einmitt til liðs við Brighton sumarið 2018 frá Lille í Frakklandi og er því á sínu fjórða tímabili í ensku úrvalsdeildinni á suðurströnd Englands.

Bissouma, sem er 25 ára landsliðsmaður Malí, hefur leikið vel á þessum tíma og spilað alls 90 leiki í deildinni, þar sem hann hefur skorað tvö mörk.

Hann var í sumar orðaður við stærri félög, þar á meðal Liverpool og Arsenal, en hélt kyrru fyrir hjá Brighton.

mbl.is