Guardiola á að einbeita sér að þjálfun

Pep Guardiola vill sjá fleiri stuðningsmenn mæta á völlinn.
Pep Guardiola vill sjá fleiri stuðningsmenn mæta á völlinn. AFP

Kevin Parker, formaður stuðningsmannafélags Manchester City, var ósáttur með ummæli Pep Guardiola, stjóra City, eftir leik City og Leipzig í A-riðli Meistaradeildarinnar á miðvikudaginn síðasta.

Leiknum lauk með 6:3-sigri City en í viðtölum eftir leik hvatti hann stuðningsmenn City til þess að fjölmenna á völlinn um helgina þegar City tekur á móti Southampton í ensku úrvalsdeildinni.

„Ég myndi vilja sjá fleiri stuðningsmenn í stúkunni,“ sagði Guardiola í samtali við BT Sport eftir sigurinn gegn Leipzig.

„Þessi ummæli komu mér mikið á óvart,“ sagði formaður stuðningsmannafélags City í samtali við The Guardian.

„Ég átta mig ekki á því hvað hann er að skipta sér af þessu. Margir stuðningsmenn liðsins eiga í miklu vandræðum með að mæta á kvöldleiki á miðvikudagskvöldum. Margir eiga börn, aðrir hafa ekki efni á því að mæta á völlinn og svo er ennþá kórónuveirufaraldur.

Hann er klárlega besti þjálfari í heiminum í dag en án þess að sýna eitthvað virðingarleysi þá á hann að einbeita sér að því að þjálfa liðið. Fólk talar meira um þessi ummæli hans eftir leikinn en frábæran leik liðsins gegn Leipzig,“ bætti Parker við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert