Jóhann Berg bjartsýnn fyrir leikinn gegn Arsenal

Jóhann Berg Guðmundsson og Naby Keita eigast við í leik …
Jóhann Berg Guðmundsson og Naby Keita eigast við í leik Liverpool og Burnley í ágúst. AFP

Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu og leikmaður Burnley í ensku úrvalsdeildinni, er bjartsýnn fyrir deildarleik enska liðsins gegn Arsenal á morgun.

Burnley bíður ennþá eftir sínum fyrsta sigri á tímabilinu en liðið er með 1stig í átjánda og þriðja neðsta sæti deildarinnar eftir fyrstu fjórar umferðirnar.

Arsenal vann sinn fyrsta leik í síðustu umferð gegn Norwich á Emirates-vellinum í London en leiknum lauk með 1:0-sigri Arsenal.

„Við þurftum að bíða aðeins eftir fysta deildarsigrinum á síðustu leiktíð þannig að við erum ekki farnir að panikka en sem komið er,“ sagði Jóhann.

„Við þurfum að sýna góða frammistöðu í 90 mínútur en heilt yfir þá höfum við spilað ágætlega á tímabilinu. Það hefur bara ekki skilað sér úrslitalega séð.

Arsenal er gott lið sem spilar góðan fótbolta. Þeir eru með frábæra leikmenn en ég er bjartsýnn fyrir okkar hönd og við munum gera þeim erfitt fyrir,“ sagði landsliðsmaðurinn meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert