„Þetta er búið að vera hræðilegt“

Nuno Espírito Santo er svekktur með stöðu mála.
Nuno Espírito Santo er svekktur með stöðu mála. AFP

Nuno Espírito Santo, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, sýtir það að vera sífellt að missa fleiri leikmenn í meiðsli.

Í 2:2 jafntefli gegn Rennes í Sambandsdeild Evrópu höltruðu bæði Lucas Moura og Steven Bergwijn af velli og bætast þeir í hóp Son Heung-Min og Eric Dier sem voru báðir fjarri góðu gamni í Frakklandi í gær.

„Þetta er búið að vera hræðilegt verð ég að segja í allri hreinskilni. Við skulum ekki fela okkur á bak við neitt,“ sagði Santo eftir leik í gær.

Tottenham hefur einnig verið án Argentínumannanna Giovani Lo Celso og Cristian Romero auk Kólumbíumannsins Davinson Sánchez, en þremenningarnir æfa nú í Króatíu eftir að hafa brotið sóttvarnareglur með því að ferðast í landsliðsverkefni þjóða sinna fyrr í mánuðinum.

Þeir þurftu að fara í einangrun í rauðmerktu löndunum sem þeir ferðuðust til í Suður-Ameríku og að henni lokinni ferðuðust þeir til Króatíu, með það fyrir augum að sleppa við tíu daga einangrun sem myndi bíða þeirra færu þeir beint til Englands frá rauðmerktu löndunum.

„Allt það sem hefur gerst eftir leikinn gegn Watford [fyrir landsleikjahlé] hefur ekki verið sérlega gott fyrir okkur. En svona er fótboltinn og við vitum að við þurfum að komast yfir þennan hjalla,“ bætti Santo við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert