Derby gæti misst 21 stig

Wayne Rooney er knattspyrnustjóri Derby.
Wayne Rooney er knattspyrnustjóri Derby. Ljósmynd/Derby County

Enska knattspyrnufélagið Derby gæti misst allt að 21 stig í B-deildinni vegna fjarmála félagsins. Derby missir níu stig fyrir brot á fjárhagsreglum ensku deildakeppninnar og gæti misst tólf stig til viðbótar fyrir að fara í greiðslustöðvun.

Mel Morris, eigandi Derby, sagði í samtali við Sky Sports að kórónuveirufaraldurinn og nokkur misheppnuð kauptilboð í félagið hafi rist djúpt. Forráðamenn ensku deildakeppnanna gáfu lítið fyrir útskýringar Morris og bentu á að Derby hafi fengið sama stuðning fjárhagslega og önnur félög í B, C og D-deildunum.

Félagið tapar á milli 1,3 og 1,5 milljónum punda mánaðarlega. Wayne Rooney, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Englands, er knattspyrnustjóri Derby. Hann viðurkenndi í samtali við Sky eftir 2:1-sigur á Stoke í dag að hafa fyrst frétt af greiðslustöðvuninni í fjölmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert