Friedel: Ég er orðinn fimmtugur og búinn að gleyma þessu

Brad Friedel, fyrrverandi markvörður Tottenham, Liverpool, Blackburn og Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni, var sérstakur gestur í Vellinum á Símanum Sport í dag.

Í þættinum ræddi hann við Tómas Þór Þórðarson, Eið Smára Guðjohnsen og Margréti Láru Viðarsdóttur.

Eftir að hafa greint leik Tottenham gegn Chelsea, þar sem Chelsea hafði öruggan 3:0 sigur á útivelli, var Friedel sýnd gömul klippa.

Þar má sjá Eið Smára skora sína einu þrennu í ensku úrvalsdeildinni fyrir Chelsea, einmitt gegn Friedel sem lék þá með Blackburn.

„Við þurfum VAR. Þetta eru tvö mörk sem ættu ekki að telja,“ sagði Friedel kíminn um fyrstu tvö mörk Eiðs Smára í klippunni og þótti hann hafa verið rangstæður í þeim báðum. Þriðja markið kom svo úr vítaspyrnu.

„Ég var búinn að gleyma þessu. Ég er orðinn fimmtugur þannig að ég gref svona hluti djúpt í hugarfylgsnum mínum,“ bætti Friedel við.

Umræðurnar má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

mbl.is