Rautt og fimm mörk þegar Skagamenn stukku úr fallsæti

Orri Hrafn Kjartansson og Brynjar Snær Pálsson í fyrri leik …
Orri Hrafn Kjartansson og Brynjar Snær Pálsson í fyrri leik liðanna í sumar. Ljósmynd/Unnur Karen

Akurnesingar höfðu tök á Fylkismönnum þegar liðin mættust á Skipaskaga í dag í efstu deild karla í fótbolta enda mikið í húfi í 21. umferð.  Þegar Árbæingar misstu mann af velli á 12. mínútu hertu Skagamenn örlítið tökin og lönduðu 5:0 sigri, sem sendi Fylki í fallsæti.

ÍA er með 18 stig, HK 17 og Fylkir 16 í þremur neðstu sætunum en HK á eftir að mæta Stjörnunni á morgun. 

Árbæingar fengu fyrstu sóknina og sæmilegt færi eftir langt innkast en Skagamenn fóru strax að berjast yfir undirtökunum og tókst það að mestu.  Á 12. mínútu fór svo heldur betur að draga til tíðinda, eftir horn Skagamanna varð svakaleg þvaga upp við mark Fylkis og Akurnesingurinn Steinar Þorsteinsson náði skoti á markið.  Þá flautaði dómarinn, rak Þórð Gunnar Hafþórsson útaf fyrir að verja á línu og dæmdi víti.  Steinar steig fram og skoraði af öryggi, staðan 1:0.  

Fylkismönnum var brugðið og skömmu síðar tók Rúnar Páll Sigmundsson tvo leikmenn útaf en setti inn Ragnar Sigurðsson og Helga Val Daníelsson.  Það þarf ekki að vera mikill spekingur til að vita að nú skyldi gripið til reynsluboltanna.   Skagamenn sóttu stíft eftir markið með nokkrum hornspyrnum og sæmilegum skotum en tókst ekki að brjóta gestina alveg á bak aftur því Fylkismenn náðu að stilla varnarleikinn aðeins af auk þess að koma inn nokkrum sóknum.

Aðeins voru liðnar tæpar fimm mínútur af síðari hálfleik þegar Hákon Ingi Jónsson bætti við marki fyrir ÍA af stuttu færi þegar hann stakk sér fram til að afgreiða góða sendingu Gísla Laxdal Unnarsson í markið af stuttu færi, 2:0.

Fylkismenn mega eiga að þeir gáfust ekki upp en það vantaði eitthvað uppá auk þess að vörn Skagamanna var þétt og traust.  Sjálfir voru Skagamenn snöggir fram og tókst að nýta sér það einu sinni í marki Hákons á 49. mínútu á meðan Viktor Jónsson átti arfaslakt skot á 58. mínútu í galopnu færi.  

Enn bættu ÍA í  og næsta mark kom síðan á 76. mínútum þegar Aron Snær Friðriksson markvörður Fylkis hélt ekki sæmilegu skoti Jóns Gísla frá vítateigslínunni, varði en missti yfir sig, 3:0.

Enn bætti ÍA við og næsta mark kom á 84. mínútu þegar Ingi Þór Sigurðsson, sem kom inná sjö mínútum áður, skoraði með hnitmiðuðu skoti, 4:0.  Veislunni var ekki lokið og Eyþór Aron Wöhler skoraði á síðustu mínútu, 5:0, þegar hann komst einn upp völlinn og skoraði auðveldlega.

ÍA 5:0 Fylkir opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert