United sigur eftir ótrúlegar lokamínútur

David de Gea er hér að fara verja vítaspyrnuna örlagaríku.
David de Gea er hér að fara verja vítaspyrnuna örlagaríku. AFP

Manchester United vann 2:1-sigur á West Ham á útivelli í hádramatík í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Jesse Lingard og David de Gea reyndust hetjur United á ótrúlegum lokamínútum.

Það voru heimamenn í West Ham sem hófu leikinn betur og komust nokkuð verðskuldað í forystu á 30 mínútu, þó markið hafi reyndar verið nokkuð lukkulegt. Jarrod Bowen tíaði þá Said Benramha upp fyrir utan teigs og skot sóknarmannsins fór af varnarmanni og breytti um stefnu, óverjandi fyrir De Gea í markinu.

Gestirnir voru þó ekki lengi að jafna, Cristiano Ronaldo gerði það á 35. mínútu. Bruno Fernandes átti þá laglega fyrirgjöf inn í teig, Ronaldo náði skoti að marki sem Lukasz Fabianski varði, en Portúgalinn skoraði þá úr frákastinu.

Í síðari hálfleik reyndu svo bæði lið að kreista fram sigurmark en leikurinn stefndi í jafntefli. Það var svo á 89. mínútu að varamaðurinn Jesse Lingard, sem spilaði með West Ham að láni á síðustu leiktíð, skoraði glæsilegt mark, sneri boltann upp í hægra hornið innan teigs. Dramatíkin var þó ekki búinn er heimamenn fengu vítaspyrnu á þriðju mínútu uppbótartímans.

David Moyes, knattspyrnustjóri West Ham, skipti þá hinum magreynda Mark Noble inn á til að taka vítið. Það fór þó ekki betur en svo að De Gea varði spyrnuna og reyndist hetja United sem fer upp á topp deildarinnar, er þar ásamt Liverpool með 13 stig eftir fimm leiki.

Einn annar leikur fór fram á sama tíma en Brighton vann afar sterkan 2:1-sigur á Leicester þökk sé mörkum Neal Maupay og Danny Welbeck. Jamie Vardy minnkaði muninn fyrir gestina sem komust þó ekki nær. Brighton er því í þriðja sætinu sem stendur eftir fimm leiki, fjóra sigra og eitt tap. Lecester er með sex stig í 12. sæti.

Cristiano Ronaldo jafnaði metin fyrir Manchester United í Lundúnum í …
Cristiano Ronaldo jafnaði metin fyrir Manchester United í Lundúnum í dag og fagnar hér marki sínu. AFP
West Ham 1:2 Man. Utd opna loka
90. mín. Þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is