Hann treysti sér ekki til þess að spila

Thomas Tuchel og Édouard Mendy ræða málin.
Thomas Tuchel og Édouard Mendy ræða málin. AFP

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að Édouard Mendy, markvörður liðsins, hafi ekki treyst sér til þess að spila leik þess gegn Tottenham í gær eftir að hafa orðið fyrir þungu höggi í síðustu viku.

Mendy lenti í samstuði seint í sigurleik Chelsea gegn Zenit frá Sankti-Pétursborg í Meistaradeild Evrópu síðastliðinn þriðjudag og náði ekki að jafna sig í tæka tíð.

„Við reyndum alla vikuna og á laugardeginum var þetta tvísýnt. Þetta gerðist í síðustu spyrnu leiksins gegn Zenit í Meistaradeildinni. Þetta var mjög sársaukafullt og honum leið ekki eins og hann væri 100 prósent klár í að skutla sér eða lenda skutlum sínum.

Hann treysti sér ekki fyllilega til að berjast um boltann í föstum leikatriðum og hornspyrnum,“ sagði Tuchel í samtali við Sky Sports eftir 3:0 sigur Chelsea gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Spánverjinn Kepa Arrizabalaga, dýrasti markvörður knattspyrnusögunnar, tók stöðu Mendy í markinu í leiknum og stóð sig vel.

„Því ákváðum við að velja einhvern í markið sem var 100 prósent klár og það var Kepa svo sannarlega. Við höfðum svo Édou með okkur til stuðnings og til þess að sjá til þess að það væri góð orka sem umlykti okkur.

Ég er ánægður með það að Kepa hafi spilað lykilhlutverk í leiknum og haldið hreinu. Hann á þetta skilið og ég gleðst yfir því að hann hafi náð þessu,“ sagði Tuchel einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert